*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 16. mars 2015 09:26

Tvær Boeing 767-300 bætast í flota Icelandair

Flugfélag Íslands kaupir Bomabardier og selur allar fimm Fokker 50 vélar sínar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á árinu 2015 verða 23 Boeing 757-200 flugvélar í rekstri Icelandair sem taka 183 farþega og ein 757-300 flugvél sem tekur 220 farþega. Af þessum 24 flugvélum eru 22 í eigu félagsins en tvær á leigu og verður þeim skilað næsta haust. Tekin hefur verið ákvörðun um að leysa þær af hólmi með tveimur Boeing 767-300 vélum sem taka um 260 farþega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group.

Nýju vélarnar munu fljúga í leiðakerfinu frá og með vorinu 2016. „Há sætanýting á mörgum flugleiðum félagsins allan ársins hring, auk takmarkana á afgreiðslutímum á sumum flugvöllum gerir það fýsilegt að taka inn stærri flugvélar. Jafnframt hefur stækkun flugflota félagsins undanfarin ár gert það að verkum að það er aukin hagkvæmni í því að hafa fleiri stærðir af flugvélum í flotanum.“

Flugfélagið kaupir Bombardier

Þá verða allar fimm Fokker 50 vélar Flugfélags Íslands seldar og þrjár Bombardier Q400 munu koma í þeirra stað.  Eftir breytinguna verður Flugfélag Íslands með fimm flugvélar í rekstri, þrjár Q400 og tvær Bombardier Q200. Q400 flugvélarnar taka 74 farþega en Fokker 50 flugvélarnar taka 50 farþega.

„Við þessa breytingu verður einföldun og hagræðing í rekstri Flugfélagsins þar sem flugvélum fækkar auk þess sem samlegð er mun meiri í rekstri nýja flotans en þeim gamla þar sem allar flugvélarnar verða frá sama framleiðanda. Q400 vélarnar eru jafnframt hraðskreiðari og langdrægari en Fokker 50 flugvélarnar og því sér félagið fram á tækifæri til sóknar á nýja markaði,“ segir í tilkynningunni.

„Það hefur verið mikið hagræði af því að hafa einsleitan flota hjá Icelandair en þegar leiðarkerfið og flugflotinn nær ákveðinni stærð þá verður það fýsilegra að hafa fleiri stærðir flugvéla í flotanum. Há sætanýting allan ársins hring auk takmarkana á afgreiðslutímum á sumum flugvöllum styðja jafnframt við þessa ákvörðun. Hvað varðar Flugfélag Íslands þá mun einföldun flotans skila meiri breidd í framboði auk þess sem þjálfun áhafna verður einfaldari,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.