*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 19. apríl 2021 13:47

Tvær frá TM í nýja stjórn Kviku

Sjálfkjörið var í stjórn Kviku banka en þar af sitja áfram þrír úr núverandi stjórn bankans og tveir stjórnarmenn TM.

Ritstjórn
Helga Kristín Auðunsdóttir og Kristín Friðgeirsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Sjálfkjörið verður í stjórn nýsameinaðs félags Kviku og TM þar sem einungis fimm buðu sig fram. Stjórnina munu skipa Sigurður Hannesson, Guðmundur Þórðarson, Guðjón Reynisson, Helga Kristín Auðunsdóttir og Kristín Friðgeirsdóttir. Framboðsfrestur til stjórnar félagsins rann út á föstudaginn. Þetta kemur fram í tilkynningu Kviku banka fyrir aðalfund félagsins sem fer fram á miðvikudaginn næsta. 

Sigurður, Guðmundur og Guðjón sátu fyrir í stjórn Kviku en Helga Krístín og Krístín voru stjórnarmenn TM. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, verður áfram stjórnarformaður Kviku. Varamenn í stjórn verða Inga Björg Hjaltadóttir, sem situr í núverandi stjórn Kviku banka, og Sigurgeir Guðlaugsson.

Kristín var skipuð í stjórn TM í ágúst 2013. Hún er alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi með eigin rekstur á sviði stefnumótunar, ákvarðanatöku, áhættustýringar, gagnagreiningar og tekjustýringar. Kristín hefur kennt við London Business School síðan 2002 og gegnir stöðu Adjunct Professor. Helga Kristín tók sæti í stjórn TM fyrir rúmu ári. Hún hefur starfað um átta ára skeið sem stjórnandi og lektor við Háskólann á Bifröst.

Því er ljóst að Hrönn Sveinsdóttir mun hætta í stjórn Kviku. Örvar Kjærnested, Andri Þór Guðmundsson og Einar Þór Ólafsson, sem hafa ásamt Helgu og Krístínu skipað stjórn TM, verða ekki í stjórn sameinaða félagsins.