Alls var 58 manns sagt upp í tveimur hópuppsögnum um mánaðamótin, 38 hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og 20 hjá bílaumboðinu Heklu. Í fyrrnefnda tilvikinu er um uppsagnir vegna tímabundinnar rekstrarstöðvunar í sumar að ræða en hjá Heklu mun endurskipulagning og hagræðing í rekstri vera ástæðan.

Morgunblaðið hefur eftir Ólafi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Heilsustofnunar NLFÍ, að nauðsynlegt sé að bregðast við niðurskurði á fjárveitingum og ekki sé lengur hægt að komast hjá niðurskurði enda sé launakostnaður stór hluti rekstrarkostnaðar. Ákveðið hafi verið að loka í tvo mánuði í sumar og eru uppsagnirnar hluti af því en gert er ráð fyrir að þeir sem nú er sagt upp komi aftur til vinnu í haust.

Þá hefur blaðið eftir öðrum eigenda Heklu að uppsagnirnar þar á bæ nái til ýmissa sviða fyrirtækisins og þannig séu yfirmenn og framkvæmdastjórar í hópi þeirra sem sagt er upp.