Brynhildur Þorgeirsdóttir, Sigrún Ámundadóttir og Ægir Már Þórisson hafa tekið sæti í framkvæmdastjórn Advania á Íslandi í samræmi við nýtt skipulag félagsins hér á landi. Hið nýja skipulag Advania miðar að því að efla þjónustu og samskipti við viðskiptavini, ásamt því að auka bæði hagkvæmni og skilvirkni í rekstri fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu frá Advania að í framkvæmdastjórn fyrirtækisins sitji forstjóri fyrirtækisins, fjórir framkvæmdastjórar tekjusviða og þrír framkvæmdastjórar stoðsviða. Ásamt Brynhildi, Sigrúnu og Ægi sitja í framkvæmdastjórn þeir Gestur G. Gestsson forstjóri, Bjarni Birgisson framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna, Eyjólfur Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri rekstrarlausna, Gunnar Ingimundarson framkvæmdastjóri viðskiptalausna og Jóhann Þór Jónsson framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs.

Nánar um einstaklingana í framkvæmdastjórn Advania

  • Brynhildur Þorgeirsdóttir er nýráðin sem framkvæmdastjóri viðskiptastýringar Advania. Brynhildur kom til starfa hjá Advania frá Vodafone í upphafi árs 2013. Viðskiptastýring er nýtt stoðsvið innan fyrirtækisins, sem hefur umsjón með viðskiptastýringu, samhæfingu á sölu og samskiptum við lykilviðskiptavini.
  • Sigrún Ámundadóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra stjórnsýslulausna Advania, sem er nýtt tekjusvið innan fyrirtækisins. Sigrún hefur starfað hjá Advania og forverum þess frá árinu 1991 sem verkefnisstjóri, hópstjóri og forstöðumaður. Undir stjórnsýslulausnir heyra til að mynda Oracle-lausnir, rafræn viðskipti, mannauðslausnir og hugbúnaðarþróun fyrir opinbera aðila.
  • Ægir Már Þórisson hefur tekið sæti í framkvæmdastjórn Advania sem framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðssviðs Advania, sem er nýtt stoðsvið. Hann kom til starfa hjá Advania frá Capacent fyrir tveimur árum. Í verkahring mannauðs- og markaðssviðs eru meðal annars mannauðsmál, launavinnsla, mötuneyti, markaðsmál, vefsvæði fyrirtækisins, viðburðir, almannatengsl og innri og ytri samskipti.