Framleiðslufyrirtækið Stórveldið hefur látið mikið til sín taka á undanförnum misserum. Nú síðast framleiddi það Áramótaskaupið fyrir RÚV.  Eigendur Stórveldisins, þeir Hugi Halldórsson, Þór Freysson, Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson, hafa mikla reynslu úr sjónvarpi og nú hafa þeir ákveðið að nýta þessa reynslu og stofna tvær nýjar sjónvarpsstöðvar.

Auk þess að að geta horft á stöðvarnar í sjónvarpinu verða þær einnig aðgengilegar með appi í spjaldtölvum og á netinu. Önnur stöðin verður tónlistartengd sjónvarpsstöð fyrir ungt fólk. Samkvæmt heimildum blaðsins verður hún svolítið í anda þess sem PoppTíví var þegar þeir Simmi og Jói voru að stíga sín fyrstu skref í sjónvarpi.

Stöðin verður opin ungu fólki sem hefur áhuga á dagskrárgerð og mun það geta fengið tækifæri á að láta drauma sína rætast á þessari nýju stöð. Hún verður þó frábrugðin gamla PoppTíví að því leyti að tæknin verður notuð út í hið ýtrasta. Fyrir þá notendur sem fylgjast með útsendingu í appi eða á netinu verður dagskráin gagnvirk. Fólk mun þannig geta haft áhrif á dagskrána með ýmsum hætti til dæmis með því að velja næsta lag eða taka þátt í atburðarás þátta sem verða í beinni útsendingu.

Samkvæmt heimildum hefur Stórveldið skilgreint hina stöðina sem íslenska dægurmálasjónvarpsstöð. Á stöðinni verða kynntar ýmsar vörur og þjónusta. Fyrirtæki munu sem sagt geta keypt sér þátt (kynningu) um sína vöru eða þjónustu, sem Stórveldið mun síðan framleiða og sýna á stöðinni. Þetta verður ekki sjónvarpsmarkaður í þeim skilningi að það verður ekki símanúmer á borða neðst á skjánum með upplýsingum og verð og afslátt eins og margir þekkja af slíkum stöðvum. Í Bandaríkjunum myndi svona sjónvarpsstöð kallast infomercial-stöð en ekki TV shop.

Báðar stöðvarnar munu senda út dagskrá allan sólarhringinn og verður allt dagskrárefni íslenskt.