Spár bankans til 2020 gera ráð fyrir fjölgun í þrjár og hálfa milljón eða fækkun í eina og hálfa milljón. Það væri sami fjöldi og kom hingað árið 2015. Gangi grunnsviðsmynd greiningardeildar Arion banka eftir sækja tvær og hálf milljón erlendra ferðamanna landið heim á næsta ári.

Það er fjölgun upp á 11% frá þessu ári, sem er mun minni fjölgun en verið hefur undanfarin ár. Ferðamönnum fjölgaði til að mynda um 26% milli áranna 2016 og 2017. Þetta kom fram á kynningu greiningardeildar Arion banka á miðvikudaginn.

Greiningardeildin tók einnig saman tölur yfir erlenda ferðamenn, þar sem leiðrétt var fyrir þá skekkju sem verður vegna tengifarþega og erlendra ríkisborgara sem eru búsettir á Íslandi. Sé miðað við að ferðamaður sé sá sem gistir á Íslandi var raunverulegur fjöldi ferðamanna í fyrra 1,55 milljónir, en ekki 1,77 millj­ ónir eins og opinberar tölur gefa til kynna. Fjölgun ferðamanna frá árinu 2010 hefur því verið 350%, en ekki 386%.

Sviðsmyndin, sem nær til ársins 2020, gerir ráð fyrir hægari fjölgun ferðamanna út áratuginn og að ferðamönnum fjölgi um 8% árið 2019 og 6% 2020 og væru erlendir ferðamenn þá 2,8 milljónir. Spáin byggir á fjölmörgum forsendum og eykst því óvissan eftir því sem lengra líður á spátímann. Meðal þess sem horft er til er að engar kú­ vendingar verði á flugframboði til Íslands á næstu árum, sem greiningardeildin segir að sé einn stærsti áhrifaþátturinn á komur ferðamanna til landsins. Þannig flugu einungis tvö flugfélög til landsins í heilsársflugi árið 2005 og komu þá 250.000 ferðamenn til landsins. 2015 voru þau átta; þá komu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna. Í ár fljúga fimmtán flugfélög til Íslands og á þriðjudaginn tilkynnti bandaríska flugfélagið United Airlines að það hefji flug til landsins, en þó aðeins yfir háannatímann.

Munar tveimur milljónum á bestu og verstu spá

Bjartsýnasta sviðsmynd greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir talsvert meiri fjölgun. Árið 2019 gætu ferðamenn verið þrjár millj­ ónir og tæpar þrjár og hálf árið 2020. Svartsýnasta spá bankans gerir hins vegar ráð fyrir að ferðamönnum gæti fækkað verulega – um 7% á næsta ári, 10% árið eftir og 12% árið 2020. Fjöldi ferðamanna sem sækja Ísland heim gæti því orðið rúmlega ein og hálf milljón árið 2020.

Munurinn á bjartsýnustu og svartsýnustu spám greiningardeildarinnar er því um tvær milljónir ferðamanna, sem verður að teljast ansi mikill munur. Svartsýnasta spáin er hins vegar ekki svo slæm, því rætist hún verður fjöldi ferðamanna í lok áratugarins meiri en hann var árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.