Flugáætlun millilandaflugs Icelandair Group fyrir árið 2013 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 15% umfangsmeiri en á þessu ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group til Kauphallarinnar fyrr í dag.

Áður hefur komið fram að áfangastöðum Icelandair verði fjölgað um þrjá á næsta ári, Anchorage í Alaska, St. Pétursborg í Rússlandi og Zurich í Sviss en auk þess verður ferðum félagsins fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Alls verða áfangastaðirnir 35 á næsta ári, 10 í Norður-Ameríku og 25 í Evrópu.

„Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði hátt í 2,3 milljónir á árinu 2013, en samkvæmt áætlunum verða þeir rétt yfir 2 milljónum á árinu 2012,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að vélum Icelandair verði fjölgað um tvær á næsta ári. Þannig verða alls 18 Boeing 757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins næsta sumar en þær eru 16 nú.

„Ef umfangsmikil breyting verður á skattaumhverfi ferðaþjónustunnar á næsta ári mun Icelandair Group þurfa að breyta áherslum með því að gera ráð fyrir færri ferðamönnum til Íslands en nú er áætlað en hlutfallslega fleiri tengifarþegum milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir í jafnframt í tilkynningunni.