Aðilar vinnumarkaðarins hafa tvær vikur til að ná saman ef það tekst ekki verður ófremdarástand á vinnumarkaði. Miðað við óbreytt ástand skellur á allsherjarverkfall Starfsgreinasambandsins á þann 26. maí og daginn eftir eða 27. maí, fara hjúkrunarfræðingar í verkfall. Nú stendur yfir kosning um verkfallsaðgerðir VR, Landssamband íslenskra verslunarmanna og Flóabandalagsins. Ef þær verða samþykktar hefjast tímabundnar verkfallsaðgerðir 55 þúsund félagsmanna þessara félaga þann 28. maí og allsherjarverkfall 6. júní.  Flóabandalagið mynda Efling-stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þolir heilbrigðiskerfið í besta falli dagsverkfall hjúkrunarfræðinga. Eftir það lamast sjúkrahús landsins. Ríkisstjórnin hefur óskað eftir skýrslu frá landlækni um stöðuna og verður fróðlegt að fylgjast með því hvað mun koma fram í henni. Það gæti ráðið töluverðu um framhaldið, meðal annars um það hvort lög verði til dæmis sett verkfall geislafræðinga.

Á almenna markaðnum beinist kastljósið að viðræðum SGS, VR, Flóabandalagsins og verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins. Almenni markaðurinn mun líklega leggja línurnar fyrir aðrar samningaviðræður. Samkvæmt heimildum blaðsins er talið ólíklegt að ríkið semji við Bandalag háskólamanna (BHM) áður en samið verði á almenna markaðnum. Það er þó mögulegt.

Loks byrjaðir að tala saman

Kjaradeila BHM við ríkið er komin á rekspöl eftir að samninganefnd ríkisins lagði fram nýjar tillögur í fyrradag. Fundur var í deilunni í gær og nýr fundur hefur verið boðaður á föstudaginn klukkan 10. Páll Halldórsson, varaformaður BHM, segir að nú fyrst séu aðilar farnir að tala saman af einhverri alvöru. Það sé jákvætt.

„Við erum ekki bara að horfa á launaliðinn heldur líka strúkturinn eins og það það sé tryggt í miðlægum samningi að menn fái einhverja lágmarksgreiðlu fyrir menntun," segir Páll. „Við lögðum fram ákveðnar hugmyndir á fundinum sem þeir munu væntanlega bregðast við á föstudaginn. Síðan munum við nota tímann til að skoða og meta enn frekar tillögur ríkisins. Menn eru allavega byrjaðir að leita lausna."

Eitt af því sem BHM leggur áherslu á er endurskoðun stofnanasamningar.

„Það er öllum ljóst að stofnanasamningskerfið þarfnast endurbóta ef það á að virka. Á sumum stofnunum hafa menn geta mætt niðurskurði með því að draga saman í starfsemi en annars staðar, eins og til dæmis í heilbrigðiskerfinu, hafa menn þurft að halda fullum dampi þrátt fyrir niðurskurð og það hefur þá komið niður á launaliðnum."

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að BHM og samninganefnd ríkisins semji áður en samningar nást á almenna markaðnum svarar Páll: „Ég ætla ekkert að fullyrða um það en teorískt gæti það alveg gerst."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .