Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur
© AFP (AFP)
Haukur Þór Haraldsson, fyrrum framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Áður hafði héraðsdómur sýknað Hauk í málinu en þeirri niðurstöðu var áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að málið yrði tekið upp að nýju til efnislegrar meðferðar í héraði.

Haukur var ákærður fyrir að hafa þann 8. og 9. október 2008 millifært hátt í 120 milljónir króna af reikningi NBI Holdings Ltd. yfir á eigin reikning. Fyrir dómi sagði hann að ástæða fyrir millifærslunni hafi verið sú að hann hafi óttamst mjög að fjármunir félagsins myndu „brenna upp“ við fall bankanna.

„Ákærði var ekki eigandi þessara fjármuna þó svo hann hafi verið stjórnarmaður í félaginu og haft prókúru fyrir það. Voru þeir í reynd til ráðstöfunar fyrir Landsbankann. Þegar litið er til þess í fyrsta lagi að ákærði upplýsti bankastjóra Landsbankans á engum tíma um að hann hefði millifært fjármuni af reikningi NBI Holding Ltd. yfir á eigin reikning sem fyllst ástæða var fyrir hann að gera, í öðru lagi að engin ástæða var til fyrir ákærða að láta fjármunina vera áfram inni á eigin reikningi eftir að eignir og skuldir Landsbankans höfðu verið fluttar yfir í Nýja Landsbanka Íslands hf., í þriðja lagi að með því að varðveita fjármunina inni á eigin reikningi svipti ákærði félagið sem slíkt og Landsbankann yfirráðum yfir fjármununum og loks í fjórða lagi að ákærði hafði ekkert aðhafst í þeim tilgangi að millifæra fjármunina aftur yfir á reikning í nafni hlutafélagsins er skilanefnd bankans leitaði skýringa ákærða á millifærslunni um 7 vikum síðar telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þegar þar var komið með þessari háttsemi sinni tileinkaði sér á ólögmætan hátt í auðgunarskyni og af ásetningi fjárverðmæti sem fólust í innstæðu á innlánsreikningi er hann hafði í sínum vörslum en annar aðili var eigandi að. Með því hefur ákærði gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt ákæru, en innstæða á bankareikningi getur verið andlag fjárdráttar, samanber dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 532/2005 og nr. 406/2009. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru,“ segir í Niðurstöðu dóms.

Auk tveggja ára fangelsisvistar er Hauki gert að greiða verjanda sínum um 4,5 milljóna króna málsvarnarlaun.

Dómur héraðsdóms .