Tæplega tveggja ára kortlagningu á íslenska eldsneytismarkaðnum fer senn að ljúka. Þann 5. júní árið 2013 hóf Samkeppniseftirlitið vinnu við svokallaða markaðsrannsókn og hefur sú vinna því staðið yfir í 22 mánuði. Í maí eða júní mun eftirlitið birta frummatsskýrslu, þar sem afstaða verður meðal annars tekin til þess hvort nauðsynlegt sé að grípa til íhlutunar á eldsneytismarkaðnum.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Samkeppniseftirlitið framkvæmir markaðsrannsókn af þessu tagi. Hún er annars eðlis en hefðbundnar brotarannsóknir að því leyti að hún er opnari. Kallað hefur verið eftir sjónarmiðum olíufélaganna sjálfra sem og þriðja aðila eins og til dæmis Félags íslenskra bifreiðareigenda (FÍB).

Sporin hræða

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segist vera jákvæður í garð rannsóknarinnar.

„Sporin hræða," segir hann. „Það er þekkt í samkeppnisfræðum að á svona markaði eins og hér, fákeppnismarkaði, er æskilegt að fylgjast með því hvernig hann virkar á hverjum tíma.

Við erum um margt með mjög óeðlilegt umhverfi. Það er sama verð á eldsneyti um land allt og að jafnaði er munurinn á dýrasta og ódýrasta eldsneytislítranum um 30 aurar. Staðan er því mjög einsleit. Þetta er eitt af því sem við bentum Samkeppniseftirlitinu á.

Við nefndum það líka hvort ekki væri æskilegt að greina frekar á milli heildsöludreifingar og útsölustöðva til að auðvelda aðkomu nýrra aðila að markaðnum. Það eru líka allir að flytja inn frá sama birgja og það hefur orðið sú breyting á birgðastöðu félaganna að Statoil er í dag aðaleigandi birgða í landinu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .