Arnar Guðmundsson, löggiltur fasteignasali á fasteignasölu Akureyrar segir árið búið að vera mjög gott fyrir norðan.

Ævintýraleg verðhækkun

„Við erum að sjá verðin hækka, í sumum tilfellum alveg ævintýralega, eins og í þessum minni íbúðum. Fyrir um tveimur árum síðan gastu fengið litla tveggja herbergja íbúð, kringum 50 fermetra, á um tíu til ellefu milljónir. Í dag kostar hún fimmtán milljónir, þannig að verð hafa hækkað rosalega mikið,“ segir Arnar.

„Markaðurinn er orðinn það líflegur, sérstaklega í sumar að það er orðið veruleg vöntun á eignum á skrá. Tveggja herbergja íbúðir finnast ekki í bænum, fáar þriggja herbergja, svo sérstaklega okkur vantar sárlega minni eignirnar á skrá, það er tilfinnanleg vöntun.“

Liprari lánveitingar bankanna hjálpa unga fólkinu

Arnar segir að minni eignirnar hafi farið að hreyfast verulega fyrir um tveimur árum síðan í verði. „Síðastliðið ár, og síðustu mánuði, hafa verð verið greinilega mjög hækkandi í þessum minni íbúðum,“ segir Arnar.

„Mér finnst dálítið áberandi að unga fólkið er að koma inn á markaðinn aftur, greinilegt að bankarnir eru farnir að vera liprari í lánveitingum og þeir eru augljóslega að lána hærra veðsetningarhlutfall en þeir voru að gera. Það gerir þessu unga fólki kleyft að komast inn á markaðinn.“

Arnar segist telja að mikið af þessu sé fólk hérna úr bænum: „Stærsti hlutinn er unga fólkið hér í bænum sem er að fara að heiman, og fljúga úr hreiðrinu. Mér sýnist unga fólkið haldast vel í bænum.“