Þeir sem óska eftir þinglýsingu skjala hjá Sýslumanninum í Reykjavík gætu þurft að bíða í allt að einn og hálfan til tvo mánuði eftir afgreiðslu skjalanna. Þetta segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, í samtali við Morgunblaðið .

Þar segir að Félag fasteignasala og sýslumannsembættið hafi fundað um stöðu mála. Grétar segir að unnið hafi verið að nýju verklagi sem komi í veg fyrir að mál sem liggi inni hjá sýslumanni lendi í lengri bið en nauðsynlegt sé. Fasteignasalar geti séð hvenær unnið sé að þeirra málum og athugað hvort annmarkar séu á skjölunum. Finnist einhverjir annmarkar þarf skjalið hins vegar ekki að fara aftast í bunkann.

„Með þessu móti er ekki verið að vísa frá og þinglýsa aftur og því kemur síður til þessarar viðbótarbiðar hjá fólki,“ segir Grétar.