Ef áform um skattlagningu á raforku og kolefni ganga eftir gæti álverið í Straumsvík orðið að greiða ríflega tveimur milljörðum króna meira í skatta á næsta ári.

Í fjárlagafrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar er gert ráð fyrir að skattur á rafmagn og kolefni skili 16 milljörðum króna á næsta ári og fari hækkandi þannig að hann geti jafnvel skilað 25 milljörðum króna eftir fjögur ár.

Stærstu notendur raforku á Íslandi eru álverin en þau nota um 70% allrar raforku. 16 milljarða skattur á að skiptast jafnt á milli raforkunotenda og sem kolefnisskattur þannig að 8 milljarðar komi úr hvorum skattstofni fyrir sig.

Stærsti notandi er Alcoa og gæti félagið þurft að greiða 2 til 3 milljarða króna í aukinn skatt á næsta ári. Álverið í Straumsvík er með fyrirhugaða stækkun á næsta leyti og sama á við um Norðurál í Helguvík og Alcoa fyrir norðan.

Heimildir Viðskiptablaðsins segja að þetta hafi komið álfremleiðendunum á óvart og sömuleiðis iðnaðarráðuneytinu. Þannig höfðu menn haft pata af skattinum fyrir nokkru og töldu að hann yrði á milli 2 og 3 milljarða króna en ekki 16 milljarðar.

Álverið í Straumsvík notar um 300 Gwt þannig að króna á kverjt kílówatt myndi jafngild þriggja milljarða króna skatti á þá.