Smyril Line hefur ráðist í talsverðar endurbætur á farþegaferjunni Norrænu á liðnu ári. Kostnaður félagsins vegna uppfærslunnar er rúmlega tveir milljarðar króna. Þetta kemur fram á vef The Shetland Times, staðarblaði Hjaltlandseyja.

Sem kunnugt er siglir Norræna milli Danmerkur og Íslands með viðkomu í Færeyjum. Ráðist var í endurbæturnar þar sem farþegar hafi lengi kallað eftir auknum þægindum um borð. Vinnan fór fram í Danmörku en með henni var fimmtíu lúxus káetum bætt við skipið. Að auki hafa káetur starfsmanna verið færðar til í skipinu.

Sameiginlegum káetum var breytt í lúxus káetur en þær geymdu oft fjögur rúm. Undanfarið hefur gengið illa að selja í þær á meðan lúxuskáeturnar tólf, sem fyrir voru, fylltust oft um leið. Norræna mun sigla á ný til Danmerkur þann 1. mars og leggja af stað til Ísland fimm dögum síðar.

„Það voru nokkur svæði sem hefðu getað orðið til vandræða við þessa vinnu, til að mynda var vafi um það hvort skipið þoldi aukna þyngd, en þetta reyndist vera afar áhugaverð uppfærsla. Fyrst um sinn virtist verkefnið vonlaust en við ræddum þetta og ákváðum að fara af stað þar sem heimsfaraldurinn hlýtur að renna sitt skeið að lokum,“ er haft eftir Jóhan af Reyni hjá Smyril Line.

Í frétt The Shetland Times er minnst á að Norræna hefði á árum áður haft viðkomu á Hjaltlandseyjum á leið sinni en sú tíð væri nú liðin. Er það reyndin þrátt fyrir að bæjaryfirvöld á eyjunum hafi lagt nokkrar milljónir punda í Smyril Line en það hefði ekki dugað til. „Mun Norræna einhvern tímann sigla aftur til Hjaltlandseyja? Það er spurningin,“ segir í niðurlagi fréttarinnar.