Félag Arnars Laufdal Ólafssonar og Ragnars Ægis Fjölninssonar, Kaptio óx úr 10 milljóna tekjum árið 2013 í yfir 200 milljónir á síðasta ári og stefnir í tvöföldun á veltu í ár og næstu árin. Félagið, sem hefur fengið hálfan milljarð króna í fjárfestingar, er nú með starfsmenn út um allan heim.

„Við sjáum fyrir okkur að heildarstærð markaðarins fyrir okkar lausn nemur að minnsta kosti tveim milljörðum evra og erum við bjartsýn á að okkur takist að tvöfalda veltuna áfram á næstu árum, án þess að þurfa að tvöfalda starfsmannafjöldann á hverju ári,“ segir Arnar Laufdal Ólafsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Kaptio. Fyrirtækið selur stafræn bókunar-, tilboðs- og samskiptakerfi fyrir ferðaiðnaðinn byggð ofan á sölukerfið Salesforce.

„Þau fyrirtæki sem hafa byrjað að nota lausnina okkar vilja bara ekkert hætta þegar þau sjá að það sem við erum að gera er að opna alla þeirra ferla, hvernig þau nálgast markaðinn og hvernig þau eru að vinna innandyra hjá sér. Þannig gefum við þeim tækifæri til að breyta því til mikillar batnaðar og erum að gera það áfram. Við höfum sem dæmi náð að hjálpa viðskiptavinum okkar að auka söluna sína um 40 til 50 prósent með sama starfsmannafjölda. Þetta er raunverulegur árangur.“

Á milli áranna 2016 og 2017 jukust tekjur Kaptio um 211%, fóru úr 71 milljón í 221 milljón króna og starfsmönnum fjölgaði úr 18 í 30. Erlendar tekjur, sem koma frá ferðaskrifstofum og -skipuleggjendum víða um heim, eru nú orðnar tæplega 85% af heildartekjum félagsins. Það er því kannski ekki furða að þetta félag Arnars og Ragnars Ægis Fjölnissonar var í síðasta mánuði valið Vaxtasproti ársins sem veitt eru sprotafyrirtækjum í örum vexti. Þetta er í 12. sinn sem Samtök iðnaðarins, Samtök sprotafyrirtækja, HR og Rannsóknarmiðstöð Íslands veita viðurkenninguna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .