Eignarhaldsfélagið Festi hf. skilaði 2.063 milljóna króna hagnaði á rekstrarárinu 2016 en rekstrarár félagsins nær frá 1. mars til 28. mebrúar. Hagnaður jókst um 585 milljónir á milli ára eða um 39,5%. Rekstrartap félagsins nam 333 milljónum en á sama tíma var var hlutdeild í afkomu dótturfélaga 2.554 milljónir og jókst um 577 milljónir á milli ára. Handbært fé í lok fjárhagsársins nam 390 milljónum króna og hækkaði um 33 milljónir frá fyrra ári.

Í lok fjárhagsársins námu eignir félagsins 19.318 milljónum króna og jukust um 1.059 milljónir á milli ára. Á sama tíma námu skuldir félagsins 4.198 milljónum króna. Lækkuðu skuldir félagsins um 1.014 milljónir á milli ára. Eigið fé félagsins nam 15.120 milljónum króna í lok fjárhagsársins. Eiginfjárhlutfall var 78,2% og hækkaði um 6,8 prósentustig á milli ára.

Eignarhaldsfélagið Festi hf. á meðal annars Krónuna, Elko, Nóatún og Kjarval auk annarra dótturfélaga. 9. júní síðastliðin tilkynnti N1 að félagið hygðist kaupa allt hlutafé í Festi og nemur kaupverðið 37,9 milljörðum króna.