Hagnaður Sjóvá eftir skatta nam 2,1 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við nærri hálfs milljarðs tap á sama tíma í fyrra. Fjárfestingastarfsemi Sjóvá skilaði 1,7 milljarða hagnaði fyrir skatta.

„Afkoman á fyrsta ársfjórðungi er afar góð og einkennist af áframhaldandi heilbrigðum iðgjaldavexti og mjög góðri afkomu af fjárfestingastarfsemi. Ávöxtun á hlutabréfamörkuðum hefur verið gríðarlega góð á fjórðungnum og var afkoman af hlutabréfasafni í takt við það og raunar langt yfir því sem alla jafna má vænta. Fjárfestingatekjur námu 1.752 m.kr. og ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu nam 3,8% á tímabilinu,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, í tilkynningu samhliða árshlutauppgjörinu.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta á tímabilinu var 556 milljónir króna. Samsett hlutfall lækkaði úr 98,5% í 91,4% milli ára. Eigin iðgjöld á tímabilinu jukust um 6,3% milli ára og námu 5,3 milljörðum króna.

„Iðgjaldavöxturinn er drifinn áfram af vexti á einstaklingsmarkaði á meðan iðgjöld á fyrirtækjamarkaði dragast saman á milli tímabila. Einnig ber að hafa í huga að tíðarfarið í ár á þessum ársfjórðungi var gott og hefur jákvæð áhrif á afkomu fjórðungsins. Allt frá 2016 eða 5 ár í röð hefur afkoma af vátryggingastarfsemi verið jákvæð, sem er í takt við það sem stjórnendur hafa lagt ríka áherslu á allt frá því að félagið var skráð á hlutabréfamarkað,“ segir Hermann.

Eignir samstæðunnar í lok mars voru um 64 milljarðar króna og eigið fé 20,6 milljarðar. Skuldir félagsins jukust um 8,5 milljarða frá áramótum og námu 43,4 milljörðum. Eiginfjárhlutfall Sjóvá lækkaði því úr 36,0% í 32,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins.