Hlutafé Vodafone var aukið um tvo milljarða króna í síðasta mánuði og féð notað til þess að greiða niður skuldir. Núverandi eigendur nýttu sér forkaupsrétt að hlutafénu. Að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa Vodafone, var hlutafjáraukningin hluti af endurskipulagningarferli félagsins sem fer fram samhliða skráningu þess í kauphöll. Aukning hlutafjár var lokahnykkur í þeirri endurskipulagningu.

Alls var hlutafé aukið um rúmlega 806 milljónir hluta, samkvæmt tilkynningu til ríkisskattstjóra um hækkun á hlutafé. Hækkun var að fullu greidd með peningum. Fyrir breytinguna var hlutafé alls rúmlega 2,5 milljarðar hluta en eru rúmlega 3,3 milljarðar eftir breytinguna. Verð hvers hlutar í útboðinu sem lauk 14. september var 2,48 krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.