Siglingastofnunin í Noregi hefur fengið heimild til að verja um 110 milljónum norskra króna, eða um 2,3 milljörðum íslenskra króna, til að greiða fyrir hreinsun á olíumengun vegna strands Goðafoss í síðustu viku í Óslóarfirði. Fiskifréttir greina frá.

Þar með hefur Siglingastofnunin fengið nægilegt fjármagn til að standa straum af kostnaði við hreinsunaraðgerðir, segir Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.

Eimskip
Eimskip
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Ríkisstjórn Noregs samþykkti í vikunni að Siglingastofnunin fengi heimild til að fara 110 milljónum NOK fram úr fjárveitingum til stofnunarinnar árið 2011 til að mæta nauðsynlegum kostnaði við hreinsunina. Þegar endanlegur kostnaður liggur fyrir verður það metið hvort nauðsynlegt sé að leggja fyrir Stórþingið tillögu um framlag á aukafjárlögum.

Frétt á vefsíðu Fiskifrétta .