Nýtt spennivirki Landsnets á Grundartanga var tekið í notkun í vikubyrjun. Um er að ræða svokallað launaflsvirki sem bæt­ir rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir fyrirtæk­inu kleift að flytja meiri orku inn á Grundar­tangasvæðið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra opnaði nýja mannvirkið við hátíðlega athöfn. Bygging launaflsvirk­isins kostaði rúma tvo milljarða króna og er stærsta einstaka verkefni sem Landsnet hefur ráðist í á undanförnum árum. Undirbúningur þess hófst árið 2010 og var samið við ABB í Svíþjóð um kaup og uppsetningu á búnaði. Ákveðið var að ráðast í framkvæmd­irnar þegar ljóst var að launaflsskortur var farinn að hamla frekari álagsaukningu í tengivirkinu á Brennimel í Hvalfirði, stærsta afhendingarstað orku í flutningskerfi Landsnets.