Tap varð á rekstri Eyris Invest á fyrri helmingi árs um 13 milljónir evra, jafnvirði um 2,1 milljarðs króna á núverandi gengi. Nettó virði eigna félagsins, sem reiknast sem markaðsvirði eigna að frádregnum nettó skuldum, nemur 196 milljónum evra samanborið við 193 milljónir evra í upphafi árs. Það samsvarar 2% hækkun á tímabilinu. Eyrir er stærsti hluthafi í Marel og segir í uppgjörstilkynningu að óinnleystur hagnaður af hlutabréfum í Marel sé ekki færður til bókar, hvorki í rekstrarreikningi né efnahag, og skýrir það að mestu mismunin á rekstrarafkomu og breytingu eignavirðis. 196 milljónir evra jafngilda um 32 milljörðum króna.

Bókað eigið fé félagsins 30. júní er 173 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið 48% samanborið við 44% í árslok 2010. Vaxtaberandi skuldir félagsins lækkuðu um 52 milljónir evra á fyrri árshelmingi 2011. Í maí síðastliðnum seldi Eyrir öll hlutabréf sín í Össuri eftir að hafa verið leiðandi fjárfestir í félaginu í sjö ár. Í kjölfar söunnar hefur Eyrir greitt niður skuldir.  „Horfur í rekstri Eyris og kjarnaeigna eru góðar. Félögin eru með sterka fjárhagsstöðu í samræmi við stefnu og alþjóðleg viðmið, með nettó skuldir á bilinu 2-3x EBITDA,“ segir í tilkynningu.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris, segir í tilkynningu að stærstu áskoranir um þessar mundir felist í því ójafnvægi sem ríkir í efnahagslífi heimsins. „ Á undanförnum mánuðum höfum við séð matvæla- og orkuverð hækka um tugi prósenta. Aukin fjárfesting í nýrri og betri tækni til að auka framleiðni í matvælageiranum og orkuiðnaði er nauðsynleg og eina raunhæfa leiðin til að mæta sívaxandi eftirspurn á heimsvísu.

Innri vöxtur Marel á fyrri árshelmingi nam 19% og pantanabók hefur aldrei verið sterkari. Kjúklinga-, fisk- og kjötframleiðendur eru að endurnýja framleiðslutækin og reisa nýjar verksmiðjur til að mæta sívaxandi eftirspurn neytenda, einkum í S-Ameríku, Asíu og A-Evrópu.

Stork Technical Services (STS) styrkti stöðu sína með kaupunum á RBG og jók þannig umsvif sín á nýjum og vaxandi mörkuðum. Nú eru um 15.000 starfsmenn hjá STS sem þjónusta olíu-, gas- og orkuiðnað á Benelux svæðinu, Norðursjó, Kaspíahafi, Mið-Austurlöndum og S-Ameríku.

Við erum ánægð með þann árangur sem hefur náðst á fyrri hluta ársins. Kjölfestueignir okkar eru vel staðsettar innan atvinnugreina sem búa við góðan vöxt og horfur eru góðar,“ segir Árni Oddur.

Kjölfestueignir Eyris eru 36% hlutur í Marel og 17% hlutur í Stork BV sem á og rekur iðnfyrirtækin Stork Technical Services og Fokker Technologies. „Að auki fjárfestir Eyrir í ýmsum sprotafyrirtækjum og styður þau til vaxtar. „Kaupa og styðja til vaxtar“ stefna Eyris hefur skilað góðri ávöxtun frá stofnun félagsins árið 2000.“

Árshlutareikningur Eyris .