Gestafjöldi safna og skyldrar starfsemi var í sögulegu hámarki á síðasta ári, en ríflega 2,1 milljón gesta sótti sögn og sýningar á árinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands sem birtust nú í morgun.

Fjölgun gesta milli ára var ríflega 400 þúsund, eða um 24%. Frá aldamótum hefur gestum safna og skyldrar starfsemi fjölgað nær árvisst eftir að hafa staðið að miklu leyti í stað á seinni hluta tíunda áratugs síðustu aldar. Hagstofan segir að ætla megi að aukin aðsókn standi í beinu sambandi við aukið framboð sýningarstaða, aukna fjölbreytni sýninga og almennt fjölþættari starfsemi safna, sem og stórauknum ferðamannastraumi til og um landið.

Aðsóknin er langmest á höfuðborgarsvæðinu eða um 1,3 milljón gestir, eða 61% gesta árið 2014. Flestir sóttu sögusöfn og -sýningar, eða 60%, tveir af hverjum tíu sóttu listasöfn og -sýningar.