Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, á hann von á því að tvö ný fyrirtæki verði skráð á aðallista Kauphallarinnar núna næstu mánuði. Eina fyrirtækið sem hefur gefið það út opinberlega að það áformi að sækist eftir skráningu er Icelandair og er nú unnið að skráningarlýsingu félagsins.

Þórður sagði að sú vinna væri í góðum gangi og langt komin. Hann sagði að nokkur félög til viðbótar væru með áform um skráningu en sagðist ekki treysta sér til að nefna þau opinberleg að svo stöddu. "Ég reikna með nokkrum skráningum á þessu ári og þar af tveimur skráningum þegar í vor."

Aðspurður um markaðsaðstæður núna sagði Þórður að menn yrðu að hafa í huga að þegar félögin, sem hér um ræðir, hefðu verið að skoða skráningu þá hefði það verið á seinni hluta síðasta árs. Þá var markaðurinn að mörgu leyti ágætur en síðan gerist það að fyrstu sex vikur ársins hækkar markaðurinn mjög skarpt en gengur svo til baka, þó ekki að öllu leyti. "Hafi ástandið verið gott að mati manna í lok síðasta árs þá er það alls ekki slæmt núna. Vísitalan er hærri en hún var um áramótin og það er ágætur gangur á markaðnum þó það hafi verið miklar sveiflur á árinu af ýmsum ástæðum. Ég held að flestir hafi verið þeirrar skoðunar að það sem hljóp í markaðinn á fyrstu sex vikunum hafi ekki byggt á miklum innistæðum. Það var ekki mikið að gerast og menn virtust vera að kaupa af því að verðið var að hækka. Ég met það þannig að þó að það hafi verið flökt á markaðnum frá því um miðjan febrúar séu aðstæður til skráningar ekkert óhagstæðari. Ég sé ekki rökin þó að verðið sé ekki eins hátt eins og það var hæst. Það er gott að fara inn á markaðinn, það er mikil velta og mikið að gerast á honum. Það er því alls ekki hægt að halda því fram að þessi tímasetning sé eitthvað lakari en önnur."

Þórður sagðist halda að þó að þeir sem væru að huga að skráningu vildu að sjálfsögðu fara inn á markaðinn við hagstæðar aðstæður þá væru það vafasöm rök að fara ekki inn á markaðinn þó hann hafi lækkað eitthvað í kjölfar mikilla hækanna. Það yrði þó hver og einn að meta fyrir sig. Þórður benti á að veltan í Kauphöllinni væri ríflega tvöfalt það magn sem verið hefði í fyrra og það ætti að ýta undir áhuga manna á skráningu.

Að sögn Hannesar Smárasonar, forstjóra FL Group, er unnið að skráningu Icelandair af fullum krafti hjá félaginu. "Það er auðvitað klárt að markaðsaðstæður hafa ekki batnað en við höldum vinnu okkar við skráningu áfram á fullu og svo taka menn lokaákvarðanir þegar niðurstöðurnar liggja fyrir. Á þessum tímapunkti vinnum við að þessu á fullu," sagði Hannes og tók fram að engin föst tímasetning hefði verið nefnd.