Tveim sjómönnum á tvítugsaldir frá Búrma var bjargað um borð í ástralska þyrlu eftir að hafa verið á reki um hafið í 25 daga í kælikassa sem þarlendir kalla “esky”. Þessir kælikassar eru svipaðir fiskkörunum sem margir þekkja hér á landi.   The Sydney Morning Herald greinir frá þessu í dag, en tildrög málsins eru þau að fiskibátur sem mennirnir voru á sökk á Torres sundi 22. desember. Báturinn sem var 10 metra langur trébátur var með 20 manns um borð þegar hann sökk. Sjómennirnir sem bjargað var sögðu björgunarmönnum áströlsku strandgæslunnar að enginn skipverja hafi verið í björgunarvestum en þeim tveim hafi tekist að komast í kælikassann en hinir 18 hafi drukknað.   Mennirnir þjáðust af ofþornun þegar þeir björguðust og voru því fengir að fá vatnssopa þegar þeir voru hífðir um borð í þyrluna.   “Þegar þeir komu upp (í þyrluna) svelgdu þeir í sig tveim lítrum afa vatni á örfáum sekúndum,” sagði Terry Gadenne flugmaður þyrlunnar. Hann segir það í raun furðulegt að mennirnir hafi komist af og einnig að strandgæslan skyldi yfirleitt hafa komið auga á þá. Í kælikassanum var smávegis af fiski sem þeir gátu lagt sér til matar og einnig auðnaðist þeim að sötra regnvatn af botni kassans.   Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sjómönnum er bjargað úr kælikassa sem þessum. Á undanförnum 14 mánuðum eru þekkt minnst fimm tilfelli þar sem sjófarendur við Ástralíu hafa bjargast með sama hætti. Í júlí á síðasta ári var t.d. þrem Áströlum bjargað eftir 15 tíma veru í slíkum einangrunarkassa eftir að bátur þeirra sökk úti fyrir strönd Queensland í Ástralíu.   Þessi kassar eru ekki ósvipaðir fiskkörunum sem mikið eru notuð af íslenskum sjómönnum, nema þeir eru með þykkum einöngruðum hliðum til að verja innihaldið fyrir utanaðkomandi hita.