Sakargiftum í tveimur ákæruliðum af sex á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, var vísað frá af Landsdómi í dag. Ákæruliðunum sem vísar er frá eru: „Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði geta brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundveli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins“ og „fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“

Eftir standa ákæruliðir fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf samráðshóps væru markvissar, fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisins til að draga úr stærð bankakerfisins, fyrir að hafa ekki með virkum hætti unnið að flutningi Icesave-reikninganna yfir í dótturfélag og fyrir að hafa látið farast að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnmálamálefni.

Málið mun því fara fyrir Landsdóm. Einn dómari, Ástríður Grímsdóttir, skilaði sératkvæði og taldi að vísa ætti málinu frá í heild sinni.

Úrskurður Landsdóms .