Íslenska kauphöllin vísaði einu máli til frekari rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) í aprílmánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun. Alls hefur Kauphöllin vísað tveimur slíkum málum til eftirlitsins það sem af er árinu 2012. Hvorki FME né Kauphöllin vilja gefa upp hverjum málin tengjast né hvert umfang þeirra er, að því er segir í frétt Fréttablaðsins.

Í yfirliti yfir eftirlitsmál Kauphallar Íslands, fyrir aprílmánuð kemur fram að einu máli hafi verið vísað til FME í þeim mánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun. Þetta er þó fjarri því að vera eina málið sem Kauphöllin hefur vísað til FME það sem af er ári. Í janúar vísaði hún einu máli til FME vegna þess að ákveðnar upplýsingar voru ekki gerðar opinberar í gegnum tilkynningakerfi Kauphallarinnar áður en þær voru gerðar opinberar á öðrum vettvangi. Auk þess vísaði hún einu máli til eftirlitsins í þeim mánuði vegna gruns um markaðsmisnotkun, einu vegna þess að ekki var tilkynnt með fullnægjandi hætti um innherjaviðskipti og einu máli vegna þess að grunur lék á um innherjasvik. Auk þess vísaði Kauphöllin tveimur málum til FME í febrúar og mars.