Þeim Tómasi Ingasyni og Arnari Má Arnþórssyni, framkvæmdastjórum hjá WOW air, var sagt upp störfum í gær. Tómas var forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs WOW air og hóf störf í byrjun árs. Arnar Már tók við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs í maí, að því er fram kemur á netmiðlinum Túristi.is . Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, er spurð að því í frétt Túrista.is hvort dræm sala sé ástæða uppsagnanna. Hún segir að í sumar hafi verið sett met og útlit sé fyrir mjög gott haust og vetur.

Bæði Arnar og Tómas unnu áður hjá Icelandair.

Talsverð starfsmannavelta hefur verið í röðum stjórnenda hjá Wow air upp á síðkastið. Meðal annars hætti Ágústa Hrund Steinarsdóttir , markaðsstjóri Wow air, í febrúar og Linda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Wow air, í maí. Fleiri hafa jafnframt hætt störfum. Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, sagði í samtali við Fréttablaðið þegar Linda hætti að gerðar séu miklar kröfur til starfsfólks og ætli fyrirtækið sér stóra hluti í framtíðinni.

„Það er alveg ljóst að það hentar ekki öllum að vinna undir slíku álagi til lengdar og það er líka mjög eðlilegt að skipta um mannskap,“ sagði hann.