Finnur Sveinbjörnsson, fráfarandi bankastjóri Arion banka, segir nóg að starfrækja tvo alhliða banka á Íslandi. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Finn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Finnur bendir á að fjórir aðilar veiti nú hefðbundna bankaþjónustu um land allt, Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og sparisjóðirnir.

„Sú staðreynd að Byr var endurreistur sem hlutafélag bendir til þess að hann verði sameinaður einhverjum eða bútaður niður. Ég tel að ekki þurfi fleiri en tvo alhliða banka með útibúanet um allt land. Ég held að þetta land beri ekki meira. Það er meira svigrúm fyrir viðbótarstarfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu eins og sést á MP banka eða afmarkaðri fjármálaþjónustu eins og hjá Auði Capital eða Íslenskum verðbréfum, svo ég nefni dæmi um smærri fjármálafyrirtæki. “

Arion banki og Íslandsbanki líkir

Aðspurður um hvaða tveir bankar það ættu að sinna alhliðaþjónustunni segir Finnur ýmsa möguleika í því. „Ég nefndi til dæmis að Arion banki og Íslandsbanki eru að mörgu leyti líkir. Þeir eru ámóta stórir og báðir að miklum meirihluta í eigu gömlu bankanna, sem starfa fyrir kröfuhafa.

Landsbankinn er stærsti bankinn og eignarhaldið er allt öðru vísi en hjá hinum tveimur. Þá bendi ég að að ríkið verður ráðandi eigandi í sparisjóðakerfinu. Þar með kynni að verða áhugi á einhvers konar samstarfi milli Landsbankans og sparisjóðanna. Landsbankinn gæti orðið bakhjarl sparisjóðanna. Hann gæti sinnt ýmiss konar sérfræðiþjónustu fyrir þá, fjárstýringarþjónustu og erlendum viðskiptum. Landsbankinn gæti þá á móti lokað einhverjum af sínum útibúum og eftirláta sparisjóðunum þau starfssvæði, enda staða þeirra víða sterk.“

____________________________

Ítarlega er rætt við Finn Sveinbjörnsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .