Yfirvöld í Bandaríkjunum tóku yfir tvo banka til viðbótar í gær og seldu viðskipti þeirra til Mutual of Omaha bankans, sem auk viðskipta bankanna kaupir eignir þeirra líka.

Þessi nýjustu fórnarlömb lánsfjárkrísunnar sem verða að lúta í lægra haldi heita First National Bank of Nevada og First Heritage Bank NA of Californa. Aðeins eru tvær vikur liðnar síðan IndyMac bankinn hrundi.

Eignir First National bankans eru að andvirði 3,4 milljörðum Bandaríkjadala, samkvæmt frétt Reuters. First Heritage átti eignir upp á 254 milljónir dala. Innlán hjá fyrrnefnda bankanum námu 3 milljörðum dala á meðan innlán þess síðarnefnda voru um 233 milljónir dala.

28 útibú bankana tveggja munu opna aftur á mánudag undir merkjum Mutual of Omaha bankans. Viðskiptavinir bankanna munu geta nálgast fé sitt með eðlilegum hætti.

Mutual of Omaha bankinn er dótturfélag Mutual of Omaha, sem er trygginga- og fjármálaþjónustufyrirtæki, með eignir metnar á 19 milljarða Bandaríkjadala alls.