Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær standa nú óformlegar sameiningarviðræður yfir milli MP banka og Straums fjárfestingabanka. Undirbúningur hefur staðið yfir að undanförnu og stórir eigendur í hluthafahópum báðum megin borðsins líta sameiningu jákvæðum augum og telja hana nauðsynlega.

Verði af samruna bankanna gæti sameinaður banki verið skipaður tveimur bankastjórum . Er þannig rætt um að Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, og Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums, munir báðir gegna slíkri stöðu, en það er DV sem greinir frá þessu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins lögðu hluthafar í MP banka fram tilboð um sameiningu bankanna í desember sem var hafnað af Straumi. Nú eru hins vegar í gangi þreifingar milli félaganna. „Við lítum á það jákvæðum augum að auka hagkvæmni í þessu kerfi og einn af þeim kostum sem augljóslega liggja fyrir í þeim efnum er MP banki,“ sagði Jakob í samtali við Viðskiptablaðið.