Líf er að færast á ný í útflutning vatns frá Íslandi og nokkur félög eru nú að huga að átöppun og framleiðslu með aðkomu erlendra fjárfesta. Í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að unnið er að tveimur kostgæfnisathugunum vegna tveggja vatnsverksmiðja en fjárfesting vegna þeirra gæti numið 6 til 8 milljörðum króna.

Um leið eru áhugasamir aðilar að skoða möguleika á vatnsútflutningi frá Höfn í Hornafirði og Patreksfirði. Ef fer sem horfir gæti þannig orðið um að ræða töluverða erlenda fjárfestingu vegna vatnsútflutnings frá Íslandi á næstu árum en innlendir fjárfestar virðast aftur á móti ekki vera mjög áhugasamir.

Hér í Viðskiptablaðinu birtist úttekt um íslenskan vatnsútflutning í janúar 2002 undir fyrirsögninni "Drukkna í markaðskostnaði". Á þeim tíma var verið að gera upp síðasta stóra útflutningsfyrirtækið á þessu sviði en Þórsbrunnur hf. hafði þá til skamms tíma selt vatn undir nöfnunum Thorspring og Icelandic Waters. Ölgerðin Egill Skallagrímsson tók við þeirri framleiðslu og hefur selt vatn til Bandaríkjanna með þokkalegum árangri án þess að leggja í mikinn kostnað vegna þess.

Nú eru hins vegar enn á ný kviknaðar alvarlegar hugmyndir um að hefja útflutning vatns og hafa erlendir fjárfestar verið að skoða aðkomu að tveimur félögum. Annars vegar í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn þar sem Iceland Water Holdings í eigu Jóns Ólafssonar hefur verið að vinna að undirbúningi og eru erlendir fjárfestar nú að vinna að kostgæfnisathugun vegna málsins. Líklega er þessi hugmynd komin lengst þeirra áforma sem eru í skoðun en félagið hyggst afla 30 milljóna evra í núverandi hlutafjárútboði, eða um 2,7 milljarða króna.

Að öllum líkindum eru áform um vatnstöku á Snæfellsnesi þar næst á eftir. Þar hefur breska almenningshlutafélagið Icelandia Plc einkarétt á vatnstöku undan Snæfellsjökli en það er í meirihlutaeigu fjögurra einstaklinga. Félagið hyggst leggja í miklar fjárfestingar til að framleiða hágæðavatn til útflutnings. Í undirbúningi er lagning vatnsleiðslu að átöppunarverksmiðju sem verður reist á hafnarsvæðinu á Rifi en þar hefur félagið tryggt sér 63.000 fermetra lóð.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.