Mjög líklegt er talið að þýski bankinn Commerzbank og hinn ítalski Monte dei Paschi di Siena þurfi að leita eftir fjárhagsaðstoð hjá stjórnvöldum til að gera þeim kleift að standast nýjar reglur um 9% eiginfjárhlutfall banka og fjármálastofnana innan Evrópusambandsins sem eiga að taka gildi um mitt ár.

Breska viðskiptablaðið Financial Times segir þá sem hafi bankamál innan ESB á sinni könnu hafa áhyggjur af málinu. Ekki er útilokað að stjórnvöld landanna þjóðnýti bankana að hluta í skiptum fyrir eiginfjárinnspýtingu.

Í netútgáfu blaðsins kemur fram að samkvæmt niðurstöðum álagsprófa á evrópskra banka þurfi Commerzbank á 5,3 milljörðum evra að halda til að uppfylla kröfur um eiginfjárhlutföll en Monte dei Paschi di Siena 3,3 milljarða.