Tveir framkvæmdastjórar Arion banka hafa verið sendir í leyfi þar sem þeir hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings banka. Komið hefur fram í fréttum að um 20 einstaklingar hafi sömu stöðu í rannsókninni þó ekki sé vitað hvort það leiði til ákæru og hver verði þá ákærður.

Framkvæmdastjórarnir sem um ræðir eru þau Björk Þórarinsdóttir, sem er yfir fyrirtækjasviði, og Guðmundur Guðmundsson, sem er yfir fjárstýringu og markaðsviðskiptum. Samkvæmt upplýsingum frá Berghildi Erlu Bernharðsdóttur, upplýsingafulltrúa Arion, hafa tveir starfsmenn stöðu grunaðs manns og verið sendir í leyfi. Hún vildi ekki staðfesta hvaða starfsmenn það væru.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion voru væntingar um að staða þessara starfsmanna myndi skýrast hratt og óskuðu forsvarsmenn Arion eftir fundi með sérstökum saksóknara þegar málið kom upp. Komið hafi í ljós að málið taki lengri tíma en vonast var til og því séu viðkomandi starfsmenn í leyfi þangað til skorið hafi verið úr óvissunni hjá sérstökum saksóknara eða forsendur breytst.