*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 4. nóvember 2019 10:09

Tveir fyrrum starfsmenn Wow til Alfreðs

Alfreð hefur ráðið Sigríði Erlendsdóttur í stöðu markaðs- og sölustjóra og Hörpu Hermannsdóttur í stöðu fjármálastjóra.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Alfreð atvinnuleit hefur ráðið til sín tvo fyrrum starfsmenn Wow air; Sigríði Erlendsdóttur í stöðu markaðs- og sölustjóra og Hörpu Hermannsdóttur í stöðu fjármálastjóra. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Sigríður Erlendsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í markaðs- og alþjóðviðskiptum frá Háskóla Íslands árið 2011. Sigríður hóf feril sinn hjá Iceland Express þar sem hún starfaði í nokkra mánuði áður en leiðin lá til WOW air árið 2012 þar sem hún starfaði meðal annars sem svæðis- og sölustjóri.

Sigríður mun vinna náið með framkvæmdastjóra Alfreðs við að koma stefnu fyrirtækisins, starfsemi þess, vörum og þjónustu til helstu haghafa. Þá mun Sigríður hafa það hlutverk að byggja upp nýtt markaðsteymi frá grunni og sækja aukna markaðshlutdeild.

Harpa Hermannsdóttir er með M.Acc. í reikningskilum og endurskoðun og víðtækan bakgrunn úr fjármálageiranum, hefur m.a. starfað sem deildastjóri fjárstýringar hjá WOW air og fjármögnunarstjóri (e. Funding Manager) hjá Kaupþingi. Þá hefur Harpa verið stundakennari við viðskiptadeild HÍ.

Harpa mun hafa umsjón með fjármálum Alfreðs og daglegum rekstri og eitt af stóru verkefnum hennar er að stuðla að fjárhagslegum vexti Alfreðs.

"Það er mikill fengur í Hörpu og Sigríði og við erum afskaplega ánægð að hafa fengið þær til liðs við Alfreð teymið. Síðastliðin ár höfum við lagt mikla áherslu á vöruþróun, og munum halda því áfram, en okkur langar líka að leggja enn meiri áherslu á markaðs- og sölumálin í náinni framtíð. Sigríður og Harpa munu án efa styrkja okkur í komandi vegferð," segir Helgi Pjetur framkvæmdastjóri Alfreðs, í tilkynningunni.

Stikkorð: Alfreð Wow air