Síðastliðin ár hafa tveir gagnstæðir kraftar tekist á, annars vegar gengi íslensku krónunnar, og hins vegar húsnæðisverð. Styrking krónunnar, lítil erlend verðbólga og aukin samkeppni samhliða komu erlendra smásölufyrirtækja inn á markaðinn vinna á móti umtalsverðum hækkunum á húsnæðisverðs. Þetta kemur fram í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans á verðbólguhorfum.

Þar er bent á að þegar mest var í sumar var tólf mánaða hækkun húsnæðis 19 prósent, sem að hafði 3,9 prósentustiga framlag til tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs, en tólf mánaða lækkun innfluttra vara nam 7 prósent, og hafði það 2,3 prósentustiga framlag til tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs.

Hins vegar hefur framlag hvors um sig minnkað frá þeim tíma, enda var við því búist, þar sem að hvorugur þáttur sjálfbær til lengri tíma. Verðbólguferillinn næstu mánuði mun fyrst og fremst ráðast af því hvort þátturinn gefur hraðar eftir að mati Landsbankans.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,14% á milli mánaða og mælist 12 mánaða verðbólga 1,4%, líkt og Viðskiptablaðið hefur sagt frá. Var hækkun vísitölunnar talsvert minni en flestar greiningardeildir gerðu ráð fyrir. Landsbankinn spáði 0,29 prósent hækkun, Arion banki spáði 0,25 prósent hækkun og Íslandsbanki 0,5 prósent hækkun.