Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í kvöld á gæsluvarðhaldskröfu Embættis sérstaks saksóknara yfir öðrum fyrrverandi stjórnenda hjá Glitni. Það mun vera Jóhann Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá bankanum fallna, samkvæmt upplýsingum fréttavefjar Morgunblaðsins, mbl.is. Dómurinn úrskurðaði Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn embættisins á meintri markaðasmisnotkun í aðdraganda hrunsins fyrir þremur árum. Báðir mennirnir voru úrskurðaðir í vikulangt varðhald.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bíða tveir aðrir menn þess nú að gæsluvarðhaldskrafa Embættis sérstaks saksóknara yfir þeim verði tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Eins og áður hefur komið fram voru nokkrir handteknir í dag við rannsókn Embættis sérstaks saksóknara á tíu málum tengdum Glitni og FL Group fyrr í dag. Á meðal málanna sem heyra undir rannsóknina er Stím-málið svokallaða.

Yfirheyrslur hófust yfir sakborningum og vitnum í rannsókninni í morgun og er búist við að yfirheyrslur haldi áfram næstu daga. Alls tóku um 60 starfsmenn embættisins þátt í aðgerðunum í dag.