Símafyrirtækin Oger Telecom, sem staðsett er í Dubai, og Turkcell hafa gert hæstu tilboðin í kaupréttinn að 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu BTC, samkvæmt heimildum Financial Times.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, tryggði sér kaupréttinn að 65% hlut í BTC í desember árið 2005 og samkvæmt þeim tilboðum sem bárust er félagið verðmetið á allt að 173 milljarða króna, segir í frétt breska blaðsins.

All bárust fjögur tilboð, meðal annars frá hóp fjárfestingasjóða sem inniheldur Texas Pacific og Warburg Pincus. Mid Europa-sjóðurinn gerið einnig kauptilboð í kaupréttinn. Hins vegar voru hæstu tilboðin frá Oger Telecom og tyrkneska félaginu Turkcell.

Formleg ákvörðun um sölu á kaupréttinum hefur ekki verið tekin, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins, en Novator ákvað að ráða Lehman Brothers í byrjun árs til að vega og meta mögleika á sölu í kjölfar áhuga hugsanlegra kaupenda að félaginu.