Það þarf tvo fíleflda karlmenn til að hlaupa í skarðið fyrir Selmu Þorsteinsdóttur, hönnunar- og hugmyndastjóra hjá Pipar/TBWA, sem farin er í árs frí. Við hugmyndastjórnun tekur Sævar Sigurgeirsson en Tryggvi V. Tryggvason tekur við hönnunarstjórnun.

Sævar Sigurgeirsson hefur starfað samfleytt við auglýsingagerð sl. 11 ár sem texta- og hugmyndasmiður. Hann hefur jafnframt fengist töluvert við handritsgerð fyrir leikhús, útvarp og sjónvarp og sem tónlistarmaður og skemmtikraftur með hljómsveit sinni Ljótu hálfvitunum. Tryggvi V. Tryggvason á langan og farsælan feril að baki sem hönnuður. Hann var um langt skeið hönnunarstjóri og einn eigenda auglýsingastofunnar Yddu. Tryggvi útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1976.