Stjórnir Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands hafa staðfest samrunasamning. Samrunasamningurinn er með fyrirvara um samþykki ársfunda þeirra segir í frétt á vef landssamtaka lífeyrissjóða.

Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að sjóðirnir verði sameinaðir miðað við stöðu þeirra í árslok 2006 og að samruninn verði endanlega staðfestur á ársfundum sjóðanna á næsta ári.

Gert er ráð fyrir því að ársfundirnir verði haldnir fyrir febrúarlok.

Markmið sameiningarinnar er að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna og hámarka með þeim hætti þau lífeyrisréttindi sem sameinaður sjóður getur veitt sjóðfélögum sínum.


Starfssvæði sjóðsins nær frá Hrútafirði í vestri Skeiðársandi í austri. Sjóðurinn nær þannig til allra byggðakjarna á Norður- og Austurlandi. Sjóðfélagar eru almennt launafólk á þessu svæði, sem kemur úr ýmsum atvinnugreinum, þ.m.t. sjávarútvegi, verslun, þjónustu, iðnaði ofl.


Sameinaður sjóður mun taka til starfa í byrjun mars á næsta ári gangi sameiningaráformin eftir. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á starfsstöðvum sjóðanna á Neskaupstað og Akureyri við sameininguna.


Sjóðfélagar í sameinuðum sjóði verða um 20 þúsund og lífeyrisþegar um 6 þúsund talsins. Eignir sameinaðs sjóðs verða ríflega 80 milljarðar króna og árlegar lífeyrisgreiðslur um 2 milljarðar króna.