*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Innlent 26. júní 2019 17:30

Skilorð fyrir tíu ára gömul brot

Ákæra í málinu var gefin út árið 2013. Málinu var ítrekað frestað meðan dóms Hæstaréttar og MDE var beðið.

Jóhann Óli Eiðsson
Jón Ingi ásamt verjanda sínum, Ragnari H. Hall, í héraðsdómi árið 2013 við fyrirtöku málsins.

Jón Ingi Gíslason var í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Þá var honum gert að greiða rúmar 19 milljónir í sekt í ríkissjóð og kemur 270 daga fangelsi í staðinn sé hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Jón Ingi var á árum áður formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur. Hann var sakfelldur fyrir að hafa gjaldárin 2008 og 2009 vantalið 110,5 milljónir króna sem samkvæmt ákæru voru tekjur af 44 framvirkum gjaldmiðlasamningum við Glitni. Hefði hann því komið sér undan því að greiða 11 milljónir í fjármagnstekjuskatt.

Ákæra í málinu var gefin út í apríl 2013 en það kært til lögreglu í mars 2012. Í millitíðinni hafði Jóni verið gert að greiða álag á vantalinn tekjustofn af embætti Ríkisskattstjóra og sú niðurstaða staðfest af yfirskattanefnd. Hlé var gert á rekstri málsins haustið 2013 á meðan beðið var dóms Hæstaréttar, og síðar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), um það hvort meðferð skattamála bryti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um bann við tvöfaldri refsingu.

Sjá einnig: Jón Ingi: Þetta eru galdrabrennur

„Það eru engar vantaldar fjármagnstekjur. Deilan snýst um 11 milljónir, sem ég hef aldrei fengið. Það er skrýtið. Enginn sem ég hef hitt skilur þetta heldur,“ sagði Jón Ingi við Viðskiptablaðið þegar málið var þingfest árið 2013. Þá fullyrti hann að hann hefði ekki gert þá samninga sem hann er ákærður fyrir heldur bankinn sem hann átti í viðskiptum við.

Á því var einnig byggt fyrir dómi. Starfsmenn Glitnis hafi verið þeir einu sem hefðu haft vitneskju um útkomu einstakra samninga og óvissa hefði verið uppi um hvort bankinn hefði átt að standa skil á staðgreiðslu skatta.

Aðalkröfu Jóns um frávísun var hafnað enda þótti það uppfylla skilyrði „samfelluprófs“ MDE sem Hæstiréttur sló síðar föstu með dómi árið 2017. Þá var vikið að því að Jón Ingi hefði hvenær sem er getað óskað eftir stöðu samninganna sem Glitnir gerði fyrir hans hönd. Þá var ekki fallist á það að draga þóknanir til Glitnis frá vaxtatekjunum þar sem upphæð þeirra þótti ekki sönnuð.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess langa tíma sem rekstur málsins tók og refsingin því bundin skilorði. Þá var Jóni að auki gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, tæpar 3,9 milljónir króna.