Gengishagnaður Baugs af eignarhlut sínum í Kaldbaki, nú Burðarási, eru tveir milljarðar króna samkvæmt frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Baugur keypti 15% hlut í Kaldbaki í lok árs 2003 og bætti svo við hlutum á vormánuðum 2004. Baugur átti tæp 25% í Kaldbaki og skipti þeim fyrir 5% í Burðarási. Verðmæti hlutar Baugs í Burðarási er rúmir fjórir milljarðar en kaupverð hlutanna voru rúmir tveir milljarðar.

Í fréttinni kemur fram að kaupin voru að mestum hluta fjármögnuð með framvirkum samningum við Landsbankann eða 20% eignarhlutur í Kaldbaki og má gera ráð fyrir að vaxtakostnaður Baugs sé einhver en líklega smáaurar í samanburði við gengishagnaðinn af bréfunum.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri innlendra fjárfestinga hjá Baugi sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni að ekki hefði verið ákveðið hvernig að hlutur Baugs í Burðarási yrði fjármagnaður.

Baugur á nú í kringum 5% hlut í Burðarási en félagið hefur hækkað mikið að undanförnu, bæði vegna kaupanna á Kaldbaki og einnig í gær vegna kaupanna á hlut í Straumi. Markaðsvirði Burðaráss er 85 milljarðar króna.