Gengi hlutabréfa Vodafone féll um 2,29% í Kauphöllinni í gær og endaði í 25,65 krónum á hlut. Það hefur aldrei verið lægra og komið rúm 18,5% undir útboðsgengi. Það hefur frá áramótum fallið um 21,2%.

Hlutabréf félagsins voru skráð á markað um miðjan desember í fyrra. Gengi hlutabréfa félagsins var 31,5 krónur á hlut í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar í byrjun desember. Hæst fór gengið í 34,85 krónur á hlut seint í mars síðastliðnum. Ef horft er á gengisfallið frá þeim hæðarpunkti þá nemur það 23,5%. Vodafone var miðað við gengið 31,5 krónur á hlut metið á rétt rúma 10,7 milljarða króna. Miðað við dagslokagengið í gær var það komið niður í rúma 8,7 milljarða króna. Markaðsverðmæti Vodafone hefur því lækkað um tvo milljarða króna á rúmlega hálfu ári.

Í apríl gaf Greining Íslandsbanka út verðmat á Vodafone og var virði hlutabréfa Vodafone þar metið á 30,8 krónur á hlut. Greiningin ráðlagði hluthöfum að selja bréf sín í félaginu enda var það þá 33,65 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa Fjarskipta tók svo að falla í lok maí í kjölfar birtingar uppgjörs á fyrstu þremur mánuðum ársins. Félagið sneri úr 119 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi í fyrra í 19 milljóna króna tap á þessu ári. Ómar Svavarsson , forstjóri Vodafone, sagði afkomuna skýrast af samdrætti í einkaneyslu, breytingar á uppgjörsaðferðum og aukinn rekstrarkostnaður.

Í kjölfar uppgjörsins sendi IFS Greining frá sér annað verðmat á Vodafone . Þar kom fram að uppgjörið hafi valdið vonbrigðum. Virðismatsgengið á hlutabréf Vodafone var þar komið niður í 24,2 krónur á hlut og enn mælt með sölu hlutabréfanna.

Hér að neðan má sjá gengisþróun hlutabréfa Vodafone í Kauphöllinni. Grafið er fengið af vef Keldunnar.