Forstjórar stærstu bandarísku fyrirtækjanna sem tilheyra S&P 500 vísitölunni fengu 14,7 milljónir dala eða um tvö milljarða króna að miðgildi í laun og önnur hlunnindi á síðasta ári. Um er að ræða sjötta metárið í röð í árlegri úttekt Wall Street Journal .

Stærstur hluti fjárhæðarinnar stafar af hlutabréfum og kaupréttum sem ávinnast yfirleitt á nokkrum árum. Laun og bónusgreiðslur voru um 4,1 milljón dala eða um 550 milljónir króna á hvern forstjóra að miðgildi. Góð afkoma og miklar hækkanir á hlutabréfamarkaði á síðasta ári skýra háar árangurstengdar greiðslur.

Sjá einnig: Aldrei upplifað meiri „fyrirtækjagræðgi“

Níu forstjórar fengu laun og önnur hlunnindi að andvirði meira en 50 milljónir dala, sem jafngildir um 6,7 milljörðum króna.

Peter Kern, forstjóri Expedia, dró vagninn en hann fékk kauprétti að andvirði 295 milljónir dala, eða um 39,4 milljarða króna, sem byrja að ávinnast árið 2024. Talsmaður Expedia sagði að Kern, sem tók við sem forstjóri í apríl 2020, hafi stýrt félaginu í gegnum erfiða tíma og komið því í stöðu til að dafna.

David Zaslav, forstjóri Warner Bros. Discovery, fékk laun og hlunnindi upp á 246 milljónir dala. Bill McDermott, forstjóri skýjaþjónustufyrirtækisins ServiceNow fékk 165 milljóna dala hlunnindi. Þar á eftir kom Tim Cook, forstjóri Apple, með nærri hundrað milljónir dala og Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, með 84 milljónir dala.