Peningastefnunefnd klofnaði í tvennt þegar hún tók ákvörðun um stýrivexti fyrr í mánuðinum. Þrír af fimm nefndarmönnum studdu tillögu seðlabankastjóra um að halda vöxtum óbreyttum en tveir greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu og vildu að vextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur.

Greinargerð hefur verið birt á vefsíðu Seðlabankans, venju samkvæmt tveimur vikum eftir að ákvörðunin er kynnt. Þeir þrír sem vildu halda vöxtum óbreyttum töldu vaxtahækkun ekki tímabæra í ljósi vísbendinga um veikari vöxt innlendrar eftirspurnar en áður var reiknað með, hægs bata á vinnumarkaði, minni verðbólgu og snarprar aukningar aðhaldsstig peningastefnunnar á undanförnum mánuðum.

„Töldu þeir hættu á að veikara gengi krónunnar yki launaþrýsting í útflutnings- og samkeppnisgreinum og þar með hættu á annarrar umferðar áhrifum á verðbólgu, þrátt fyrir að vísbendingar væru um hægari vöxt eftirspurnar. Verðbólga væri enn mikil og langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst þrátt fyrir hagfelldari þróun verðbólgunnar að undanförnu. Æskilegt væri að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar, því að ella væri hætta á að peningastefnan bregðist of seint við verðbólguþrýstingi,“ segir síðan um skoðun þeirra tveggja sem vildu hækka vextina.

Í peningastefnunefnd sitja Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Þórarinn G. Pétursson, Gylfi Zoega og Katrín Ólafsdóttir.