Eftir samruna Júpíter rekstrarfélags hf. og Öldu sjóða hf. þann 31. maí síðastliðinn samþykkti stjórn nýtt skipurit félagsins og í kjölfarið hafa verið skipaðir forstöðumenn hjá félaginu.

Erlendur Davíðsson - forstöðumaður hlutabréfa

Erlendur hóf störf hjá Júpíter í febrúar árið 2013. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2005. Erlendur er með B.Sc. gráðu í hagfræði, M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja, hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og tveimur prófum hjá CFA-stofnuninni.

Þorkell Magnússon - forstöðumaður skuldabréfa

Þorkell hóf störf hjá Júpíter í júní árið 2018 en var áður forstöðumaður skuldabréfa hjá Öldu sjóðum og þar áður Stefni. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 1998. Þorkell er með C.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota. Þorkell hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Um Júpíter rekstrarfélag hf.

Júpíter rekstrarfélag hf. sérhæfir sig í stýringu fjármuna og starfrækir úrval skuldabréfa-, lausafjár- og hlutabréfasjóða sem eru rafrænt skráðir og opnir almenningi til fjárfestingar. Félagið rekur einnig blandaða sjóði og fagfjárfestasjóði. Eignir í stýringu félagsins nema um 110 milljörðum króna.

Fjárfestar í sjóðum félagsins eru einstaklingar, fyrirtæki, lífeyrissjóðir og sjóðir annarra rekstrarfélaga. Við stýringu sjóða eru hagsmunir sjóðfélaga ávallt hafðir að leiðarljósi með það að markmiði að ná framúrskarandi árangri þar sem skilvirku jafnvægi ávöxtunar og áhættu er náð. Sjóðir félagsins gefa út hlutdeildarskírteini sem eru ávísun á hlut í eignasafni sjóðanna og eru þær eignir aðgreindar frá eignum félagsins.

Júpíter hefur verið meðal framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2013 en viðurkenningin er unnin út frá ítarlegri greiningu Creditinfo á ýmsum þáttum sem varða rekstur og stöðu fyrirtækja á Íslandi.

Júpíter rekstrarfélag hf. var stofnað árið 2006 og hefur frá árinu 2007 starfað með leyfi Fjármálaeftirlitsins sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsleyfi félagsins tekur einnig til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnunar fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Júpíter er í eigu Kviku banka hf. sem er einnig vörslufyrirtæki félagsins.