*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Fólk 19. maí 2017 16:00

Tveir nýir framkvæmdastjórar

Hildur Ólafsdóttir fer úr framkvæmdastjórn Rafarnarins í framkvæmdastjórn systurfélagsins Spectralis en Sigurður Haukur Bjarnason tekur við hjá Raferninum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hildur Ólafsdóttir, sem ráðin hefur verið sem framvæmdastjóri nýs félags um hugbúnaðarþróun Rafarnarins, Spectralis, sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um, hóf störf hjá Raferninum árið 2011 og tók við starfi framkvæmdastjóra árið 2016 eftir að hafa gegnt stöðu þróunarstjóra.

Hildur er með doktorspróf frá Danmarks Tekniske Universitet með sérhæfingu í hagnýtri stærðfræði og sjálfvirkri myndgreiningu á heilbrigðissviði.

Eftir doktorsnám starfaði Hildur um tveggja ára skeið við rannsóknir á sjálfvirkri vinnslu á segulómmyndum af hjarta. Hún hefur m.a. þróað hugbúnað fyrir tölvusneiðmyndir fyrir Danish Meat Research Institute í Danmörku (nú Danish Technological Institute) og 3D Craniofacial Research Lab.

Sigurður Haukur Bjarnason, sem hóf störf hjá Raferninum í febrúar 2016, tekur við sem framkvæmdastjóri Rafarnarins. Áður starfaði hann sem tæknimaður í þjónustudeild Olíudreifingar. Hann er rafvirkjameistari og raffræðingur frá Iðnskólanum í Reykjavík.