Áki Sveinsson hefur hafið störf sem markaðsstjóri áfengra drykkja hjá Coca-Cola European Partners á Íslandi og mun leiða og bera ábyrgð á markaðsmálum er tengjast öllum áfengum vörum fyrirtækisins á Íslandi þar með talið bjór sem seldur er undir merkjum Víking Brugghúss.

Áki hefur mikla reynslu í markaðsmálum að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Starfaði hann síðastliðin 13 ár í markaðsdeild Íslandsbanka og sat m.a. í stjórn ÍMARK um árabil. „Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við mjög spennandi og um leið krefjandi verkefni. Það er mikil gerjun á markaðnum og hörð samkeppni,“ er meðal annars haft eftir Áka í tilkynningunni.

„Það er mjög spennandi að taka við stjórn markaðsmála fyrir Víking Brugghúss, enda vörumerkið leiðtoginn hér á markaði þar sem einn af hverjum þremur bjórum sem neytt er á Íslandi kemur frá Víking Brugghúsi “ Áki útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2003 og útskrifaðist með MBA gráðu frá sama skóla þann 17. júní síðastliðinn.

Björg Jónsdóttir hefur hafið störf sem forstöðumaður á sölu- og þjónustusviði hjá Coca-Cola European Partners á Íslandi. Björg mun leiða starfsemi sölu- og viðskiptaþjónustu auk innleiðingu nýrra kerfa og vinnuaðferða í sölu- og þjónustu til samræmis við Coca-Cola European Partners samstæðuna.

Áður starfaði Björg sem forstöðumaður og sölustjóri hjá Valitor, hjá Eimskip og Heritable Bank í London. Björg útskrifaðist í Viðskiptalögfræði frá University of Hertfordshire í Englandi og hálfnuð með Mastersnám í Stjórnun og stefnumótun í HÍ.