Auglýsingastofan Vert Markaðsstofa hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn, þær Andreu Guðrúnu Hringsdóttur og Jessicu Comes.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vert.

Andrea Guðrún mun starfa sem textasmiður og samfélagsmiðlari ásamt því að sinna verkefnum sem snúa að hreyfimyndahönnun, ljósmyndun og almennum hönnunarverkefnum innan Vert Markaðsstofu og Jessica mun sinna störfum sem snúa að stafrænni hönnun sem og almennri hönnun.

Andrea Guðrún býr að fjölbreyttum bakgrunn en hún hefur meðal annars unnið við blaðamennsku. Andrea útskrifaðist í maí síðastliðnum úr Margmiðlunarskólanum þar sem hún hefur lagt stund á hreyfimyndahönnun, tæknibrellur og þrívíddarvinnslu síðustu tvö ár. Auk þess er hún með Diplómu í grafískri miðlun frá Florence University of the Arts og hefur lokið Bachelor gráðu frá Háskóla Íslands í Heimspeki.

Jessica er grafískur hönnuður að mennt með gráðu í Margmiðlun frá Adolph-Kolping-Berufskolleg í Münster í Þýskalandi.  Jessica hefur unnið á nokkrum auglýsingastofum í Þýskalandi, sú síðasta GUCC grafik & film í Münster þar sem hún meðal annars vann til verðlauna ásamt teymi sínu fyrir auglýsingaherferð fyrir Cineplex, sem er kvikmyndahúsakeðja í Þýskalandi. Á Íslandi hefur Jessica meðal annars starfað hjá Dohop sem vefhönnuður.

Í tilkynningunni segir Stefán Sveinn Gunnarsson, framkvæmastjóri Vert: “Það er okkur, sem störfum hjá Vert, sem og auðvitað viðskiptavinum okkar, sönn ánægja að fá svona vel menntað og hæfileikaríkt starfsfólk til okkar. Þetta eykur breiddina í þjónustuframboði okkar og stefnum við á að bæta við starfsfólki enn frekar á næstu mánuðum. Ennfremur er nauðsynlegt að yngja upp - maður sér það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn, sagði meistarinn víst.”