*

þriðjudagur, 15. október 2019
Fólk 24. júní 2019 09:35

Tveir nýir til Aldeilis

Tveir nýjir starfsmenn hafa slegist í hópinn hjá auglýsingastofunni Aldeilis.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tveir nýir starfsmenn hafa slegist í hópinn hjá auglýsingastofunni Aldeilis. Lára Garðarsdóttir, hönnuður og Pétur Kiernan, markaðsráðgjafi. Það sem af er ári hafa umsvif stofunnar aukist umtalsvert með nýjum og fjölbreyttum verkefnum. 

Lára Garðarsdóttir er menntaður teiknari og kvikari (character animator), frá The Animation Workshop, í Danmörku. Hjá Aldeilis starfar hún sem grafískur hönnuður en einnig sem texta- og hugmyndasmiður. Lára hefur getið sér gott orð sem teiknari og myndskreytt fjölda bóka, sínar eigin og annarra. Á tillidögum fær íslenski fjárhundurinn, Mía, að fylgja Láru í vinnuna. Samstarfsmönnum (og ferfætlingi) til ómældrar gleði.

Pétur Kiernan stundar nám í fjármálaverkfræði í HR auk þess að vera umboðsmaður tónlistarmannsins, Flóna. Hann sinnir fjölbreyttum verkefnum við markaðs- og samfélagsmiðlaráðgjöf. Pétur er mikið tískuljón og kom að stofnun og rekstri fatamerkisins Child, rekur re-sell síðuna brdstor ásamt ótal öðrum spennandi verkefnum.

Páll Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Aldeilis, er í skýjunum með nýju starfsmennina: „Við erum alsæl með að hafa fengið þessa viðbót í hópinn. Lára og Pétur smellpassa inn í Aldeilis og koma bæði inn með afburðarhæfni og verðmæta reynslu í farteskinu. Það hefur verið mjög góður gangur hjá okkur á árinu, þó mikið púður hafi farið í endurmörkun á fyrirtækinu.“ Aldeilis hét áður Hype en breytti nafninu samhliða flutningum fyrr á árinu. Auglýsingastofan er nú til húsa á Hverfisgötu 4.

„Þó að auglýsingastofuhlutinn hafi vaxið mikið hjá okkur er vert að taka fram að stór hluti verkefnanna liggur í vefsíðugerð. Við vorum með þeim fyrstu á markaðnum til að sérhæfa okkur í hönnun og uppsetningu vefsíðna í Wordpress, vefumsjónarkerfinu. Í dag er kerfið leiðandi á markaði og ört vaxandi. Þar sem kerfið er frítt og með gríðarlegan fjölda þróunaraðila að baki sér, getum við boðið upp á ótrúlega hagkvæmar lausnir í uppsetningu vefsíðna.”

„Það er alla vega ljóst að þrátt fyrir ákveðinn skjálfta í kerfinu síðustu mánuði þá gætum við vart verið glaðari hér á þessari stofu. Gott veður, spennandi verkefni og enn skemmtilegra fólk.“ segir Páll sem sér fram á bjarta tíma hjá auglýsingastofunni Aldeilis, á Hverfisgötu.