Korta hefur ráðið tvo nýja yfirmenn til starfa en á á ríflega ári hefur starfsfólki Korta fjölgað um u.þ.b. 60% vegna aukinna umsvifa bæði hér á landi og erlendis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Starfa nú á fimmta tug manns hjá fyrirtækinu.

Guðbjörg Stefánsdóttir
Guðbjörg Stefánsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðbjörg rekstrar- og mannauðsstjóri

Guðbjörg Stefánsdóttir hefur verið ráðin í starf rekstrar - og mannauðsstjóra Korta en hún er fyrrum framkvæmdastjóri Cintamani ásamt því að hafa reynslu af mannauðsmálum og rekstrarráðgjöf fyrirtækja.

Guðbjörg er með B.ed í kennslu og Mastersgráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Eiginmaður hennar er Eiríkur Jóhannsson og eiga þau tvo stráka.

Brynjólfur Gunnarsson
Brynjólfur Gunnarsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Brynjólfur forstöðumaður Upplýsingatæknisviðs

Brynjólfur Gunnarsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður Upplýsingatæknisviðs Korta en hann starfaði undanfarin tvö ár sem framkvæmdastjóri Verkfæralagersins. Áður starfaði hann hjá Tryggingamiðstöðinni í rúm 20 ár sem kerfisfræðingur og forritari en einnig var hann forstöðumaður hugbúnaðargerðar. Brynjólfur var einnig hjá Advania í tvö ár sem forstöðumaður Innri upplýsingatækni.

Brynjólfur er kerfisfræðingur frá TVÍ, B.Sc í tölvunarfræði frá HR og MPM-Master of Project Management frá HÍ. Hann er giftur Ástu Bjarnadóttur vátryggingarráðgjafa og þau eiga þrjú börn.

Um Korta

„KORTA, Kortaþjónustan hf., var stofnuð 2002 og sinnir færsluhirðingu á greiðslukortum í posakerfum og á netinu fyrir íslensk og erlend fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

„KORTA er fullgildur aðili að VISA Europe og MasterCard International og hefur haft alþjóðlegu kortaöryggisvottunina PCI DSS frá árinu 2005.

Í kjölfar aukinna umsvifa KORTA útnefndi bandaríska viðskiptatímaritið Inc. KORTA á síðasta ári sem eitt þeirra fyrirtækja sem hafa vaxið hraðast í Evrópu síðustu ár. KORTA var jafnframt valið fyrirmyndarfyrirtæki VR 2016.“